Spáir tveggja hesta kapphlaupi

Gabriel Jesus og James Milner eigast við í stórleik Liverpool …
Gabriel Jesus og James Milner eigast við í stórleik Liverpool og City á Anfield í Liverpool í október. AFP

Paul Scholes, fyrrverandi knattspyrnumaður Manchester United og sparkspekingur hjá BT Sport, spáir því að tvö lið muni berjast um enska meistaratitilinn á leiktíðinni.

Chelsea er sem stendur í efsta sæti deildarinnar með 22 stig, Liverpool kemur þar á eftir með 21 stig og ríkjandi meistarar í Manchester City eru með 20 stig.

Það er næsta víst að þessi lið muni berjast um sigur í deildinni í ár en West Ham er í fjórða sætinu með 17 stig.

„Frammistaða Liverpool á Old Trafford í 5:0-sigrinum gegn Manchester United er ákveðið áhyggjuefni fyrir önnur lið deildarinnar,“ sagði Scholes.

„Chelsea hafa sýnt góða frammistöðu á tímabilinu en það vantar samt sem áður eitthvað upp á þar. Ég er ekki sannfærður um að þeir verði í baráttunni framan af móti.

Ég er hins vegar sannfærður um að það verða Liverpool og Manchester City sem munu berjast um sigur í ensku úrvalsdeildinni,“ bætti Scholes við.

mbl.is