„Hefði viljað skora fleiri mörk“

Berglind Björg Þorvaldsdóttir í treyju Hammarby.
Berglind Björg Þorvaldsdóttir í treyju Hammarby. Ljósmynd/Hammarby

Berglind Björg Þorvaldsdóttir segir að nýafstaðið tímabil Hammarby í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu kvenna hafi verið vonbrigði.

Eftir að hafa verið í baráttu um þriðja sætið, Meistaradeildarsæti, allt tímabilið hafnaði Hammarby að lokum í sjöunda sæti, fjórum stigum á eftir Íslendingaliði Kristianstad sem náði þriðja sætinu.

„Þetta gekk ekki nógu vel ef ég á að vera hreinskilin. Fyrri hluta tímabilsins voru þær frekar góðar, voru í þriðja sæti fyrir hlé í sumar. Seinni hluta tímabilsins gekk ekki alveg nógu vel.

Við vildum klárlega tryggja Evrópusæti en það gekk ekki. Það var leiðinlegt en við lærum bara af þessu,“ sagði Berglind Björg á Teams-fjarfundi með fréttamönnum í dag, en hún gekk til liðs við Hammarby frá franska liðinu Le Havre á miðju tímabili.

Berglind Björg er stödd á Kýpur þar sem íslenska kvennalandsliðið mætir heimakonum á þriðjudag í undankeppni HM 2023.

Beðin um að meta eigin frammistöðu með Hammarby á tímabilinu sagði hún:

„Ég hefði klárlega viljað skora fleiri mörk en ég gerði og hafa meiri áhrif framarlega á vellinum. En þetta var fyrsta hálfa tímabilið mitt með nýju liði, það er alltaf mjög erfitt að koma inn í nýtt lið.

Svo er líka spurning um heppni, ég hefði getað skorað fleiri mörk en þetta var bara reynsla og verður vonandi betra á næsta ári.“

Berglind Björg er samningsbundin Hammarby út næsta tímabil og reiknar ekki með öðru en að taka slaginn með liðinu á næsta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert