Stjarnan styrkir sig

Stjörnumenn hafa bætt við sig leikmanni.
Stjörnumenn hafa bætt við sig leikmanni. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

Knattspyrnudeild Stjörnunnar hefur samið við Sindra Þór Ingimarsson um að leika með meistaraflokki karla næstu þrjú ár.

Sindri Þór, sem er 23 ára gamall, kemur frá Augnabliki þar sem hann hefur leikið undanfarin ár, fyrst sem lánsmaður frá uppeldisfélaginu Breiðabliki en í upphafi þessa árs gekk hann alfarið til liðs við Augnablik.

Hann er varnartengiliður sem getur einnig leikið sem miðvörður.

„Sindri er frábær karakter og býr yfir miklum gæðum. Síðustu ár hefur hann bætt sig mikið og þróað sig sem leikmaður og hefur allt sem þarf til þess að verða topp leikmaður í deildinni.

Hann fellur vel í hópinn sem fyrir er og passar fullkomlega inn í þann fótbolta sem við viljum spila þannig að það er mjög spennandi að fá hann til okkar,“ sagði Jökull I. Elísabetarson, aðstoðarþjálfari Stjörnunnar í tilkynningu frá knattspyrnudeild félagsins.

Jökull þekkir einkar vel til Sindra Þórs þar sem hann var aðalþjálfari Augnabliks undanfarin ár áður en hann tók nýverið við stöðu aðstoðarþjálfara Stjörnunnar.

„Við bjóðum Sindra innilega velkominn til félagsins og tökum vel á móti honum!“ sagði einnig í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert