Ótrúleg endurkoma meistaranna

Pablo Punyed var á skotskónum í kvöld.
Pablo Punyed var á skotskónum í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

Íslands- og bikarmeistarar Víkings úr Reykjavík fara vel af stað á Reykjavíkurmóti karla í fótbolta en liðið vann ótrúlegan 4:3-sigur á Fylki á Víkingsvelli í fyrsta leik liðanna á mótinu í kvöld.

Fylkir, sem féll úr efstu deild á síðustu leiktíð, byrjaði af gríðarlegum krafti og var staðan orðin 3:0 eftir aðeins 17 mínútur. Ómar Björn Stefánsson kom Árbæingum yfir strax á sjöttu mínútu og þeir Nikulás Val Gunnarsson og Óskar Borgþórsson bættu við mörkum á næstu mínútum.

Víkingur lagaði stöðuna töluvert fyrir leikhlé því Birnir Snær Ingason minnkaði muninn í 3:1 á 31. mínútu og Axel Freyr Harðrson skoraði annað mark Víkings á 43. mínútu og var staðan í hálfleik 3:2.

Pablo Punyed jafnaði metin á 61. mínútu og áðurnefndur Axel Freyr tryggði Víkingi magnaðan sigur með marki á 85. mínútu.

Liðin leika í A-riðli ásamt Val og Fjölni en Valur vann 8:1-risasigur í fyrsta leik riðilsins. Víkingur og Valur mætast á laugardag og Fylkir og Fjölnir sömuleiðis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert