Framlengir fyrir norðan

Steinþór Freyr Þorsteinsson í leik gegn Val.
Steinþór Freyr Þorsteinsson í leik gegn Val. mbl.is/Arnþór Birkisson

Steinþór Freyr Þorsteinsson hefur framlengt samning sinn við knattspyrnudeild KA út næsta tímabil. Steinþór hefur verið í herbúðum KA-manna síðan árið 2017 og er nú ljóst að hann verður eitt tímabil enn hið minnsta.

Steinþór, sem verður 37 ára á árinu, lék 15 leiki fyrir KA í Pepsi-Max deildinni síðasta sumar. KA endaði þá í fjórða sæti deildarinnar og rétt misstu af Evrópusæti. Ljóst er að markmiðið fyrir norðan er að taka næsta skref og komast í Evrópukeppni en nú þegar hafa samningar við nokkra lykilmenn verið framlengdir, ásamt því að Arnar Grétarsson verður áfram þjálfari liðsins.

Í tilkynningu KA segir:

Það er afar jákvætt skref að halda Steinþóri áfram innan okkar raða en auk þess að vera öflugur leikmaður er hann frábær liðsmaður og flott fyrirmynd fyrir hina fjölmörgu ungu leikmenn okkar og mun halda áfram að miðla sinni miklu reynslu til þeirra.

mbl.is