Algjörlega óásættanlegt að refsa sjálfboðaliða

Úr leik Víkings frá Ólafsvík gegn Kórdrengjum á síðasta tímabili.
Úr leik Víkings frá Ólafsvík gegn Kórdrengjum á síðasta tímabili. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Knattspyrnudeild Víkings frá Ólafsvík hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem sex mánaða bann Kristjáns Björns Ríkharðssonar frá afskiptum af fótbolta er harmað.

Málið snýr að því að lið Vík­ings var rangt skráð á leik­skýrslu er það mætti ÍR í Lengju­bik­ar karla þann 26. mars síðastliðinn.

Aganefnd KSÍ sektaði Víking um 160.000 krón­ur í sekt, úrslit­um leiks­ins, sem fór 2:1 fyr­ir Vík­ing, var breytt í 3:0-sig­ur ÍR og liðsstjórinn Kristján Björn úrskurðaður í sex mánaða bann.

Knattspyrnudeild Víkings gengst fúslega við broti sínu en þykir það með öllu ótækt að refsa Kristjáni Birni. Hefur félagið þegar áfrýjað banni hans.

Yfirlýsing Knattspyrnudeildar Víkings í heild sinni:

„Í kjölfarið á úrskurði Aganefndar KSÍ á dögunum er varðaði leik Víkings Ó. og ÍR í Lengjubikar karla í knattspyrnu á dögunum þar sem Kristján Ríkharðsson, liðsstjóri Víkings Ó. var dæmdur í sex mánaða bann vill Knattspyrnudeild Víkings Ó. koma eftirfarandi á framfæri.

Víkingur Ó. lék ólöglegum leikmanni á fölskum forsendum í leiknum. Það var gert í samráði við og með samþykki ÍR sem var mótherji okkar í leiknum sem skipti engu máli um framhaldið í mótinu. Við játum brotið athugasemdalaust og gerum hvorki athugasemdir við að 2-1 sigri okkar hafi verið snúið í 0-3 ósigur eða að félagið sé sektað fyrir brotið.

Það sem við eigum hinsvegar ákaflega erfitt með að sætta okkur við er að Kristján Ríkharðsson taki skellinn af brotinu. Fyrir það fyrsta er Kristján hvorki stjórnarmaður né starfsmaður hjá félaginu og getur því seint talist ábyrgur fyrir ákvörðunum sem teknar eru á meðal stjórnenda félagsins. Þá var hann ekki meðvitaður um að skýrslan væri ekki sett fram á réttan hátt. Allt þetta kom fram í gögnum sem við skiluðum til KSÍ en dómstóllinn metur það "ótrúverðugt" að sjálfboðaliði hafi ekki vitað um ólöglegan leikmann á skýrslu.

Kristján hefur verið einhver öflugasti sjálfboðaliði Víkings Ó. í fjöldamörg ár og hefur óflekkað mannorð innan hreyfingarinnar. Forysta knattspyrnusambandsins þykist vera fullmeðvituð um hversu erfitt það er að fá öfluga sjálfboðaliða til starfa. Þess vegna finnst okkur sambandið vera að senda mjög léleg skilaboð með því að refsa öflugum sjálfboðaliðum í málum sem þeir höfðu ekkert með að gera. Þetta teljum við algerlega óásættanlegt enda ætti KSÍ að hvetja og verðlauna sjálfboðaliða frekar en að refsa þeim með þessum hætti.

Að þessu sögðu höfum við þegar áfrýjað banninu með stuðningi ÍR og förum við fram á að banninu verði aflétt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert