Spilar ekki á næstunni vegna stækkunar á hjarta

Leikmenn Vestra fagna marki á síðasta tímabili.
Leikmenn Vestra fagna marki á síðasta tímabili. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Brenton Muhammad, markvörður karlaliðs Vestra í knattspyrnu, mun ekki spila á næstunni eftir að hann veiktist af lungnabólgu sem leiddi til stækkunar á hjarta.

Muhammad, sem er landsliðsmarkvörður Antígva og Barbúda, hefur ekki tekið þátt í fyrstu leikjum Vestra á tímabilinu af þessum sökum og hefur dvalið á sjúkrahúsi í Reykjavík vegna veikindanna.

„Brenton fékk lungnabólgu, það fór að stækka í honum hjartað. Hann var sendur suður til Reykjavíkur á sjúkrahús og er þar ennþá.

Hann er allur að koma til en það er verið að fylgja honum eftir. Hann er ekkert að spila fótbolta á næstunni,“ sagði Samúel Samúelsson, formaður meistaraflokksráðs Vestra, í samtali við 433.is.

Samúel sagði Muhammad hafa verið slappan skömmu fyrir mót og hafi nokkrum dögum síðar látið skoða sig, sem hafi endað með því að hann hélt suður þar sem fylgst er grannt með heilsu hans.

„Hann fór í göngutúr núna fyrir stuttu sem hann átti erfitt með. Maður veit ekki hver staðan verður en maður gerir ráð fyrir því að hann spili ekki á næstunni,“ bætti Samúel við í samtali við 433.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert