Víkingur ekki í vandræðum með Grindavík

Svanhildur Ylfa Dagbjartsdóttir sendir boltann í leiknum í kvöld en …
Svanhildur Ylfa Dagbjartsdóttir sendir boltann í leiknum í kvöld en hún skoraði fyrsta mark Víkings. Grindvíkingurinn Ása Björg Einarsdóttir fylgist með henni. Ljósmynd/Óðinn Þórarinsson

Víkingur úr Reykjavík vann öruggan 3:0-sigur á Grindavík þegar liðin mættust í fyrsta leik þriðju umferðar 1. deildar kvenna í knattspyrnu, Lengjudeildinni, á Víkingsvelli í kvöld.

Svanhildur Ylfa Dagbjartsdóttir kom Víkingum yfir um miðjan fyrri hálfleik og Hulda Ösp Ágústsdóttir tvöfaldaði forystuna skömmu fyrir leikhlé.

Hin unga og efnilega Sigdís Eva Bárðardóttir, sem er aðeins 15 ára gömul, kom svo inn á sem varamaður í síðari hálfleik og innsiglaði öruggan sigur Víkings með þriðja marki liðsins.

Með sigrinum fer Víkingur upp um eitt sæti, í fjórða sætið, þar sem liðið er nú með sex stig líkt og fjögur önnur lið, sem eiga þó öll leik til góða á næstu dögum.

mbl.is