Engir leikmenn tilkynnt að þeir séu hættir

Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari.
Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari. Ljósmynd/Robert Spasovski

Á blaðamannafundi í höfuðstöðvum KSÍ í dag sagði Arnar Þór Viðarsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, að enginn þeirra fjölda leikmanna sem hafa ekki leikið með liðinu um langt skeið vegna hinna ýmsu mála hafi tilkynnt sér að þeir væru hættir að leika með landsliðinu.

„Ég veit að það er kannski svolítið þreytandi og pirrandi þegar ég er að tala um að við séum að þróa nýtt lið og þurfum að gefa ungu strákunum leiki og allt þetta en ég hef líka alltaf sagt að við viljum vinna alla leiki, það finnst öllum hundleiðinlegt að tapa. Ég sem þjálfari vil að sjálfsögðu velja besta liðið úr þeim leikmönnum sem standa til boða.

Svo framarlega sem leikmennirnir, hvort sem þeir eru meiddir eða gefa ekki kost á sér að þessu sinni, tilkynna mér það ekki að þeir séu hættir þá vona ég að sjálfsögðu að þeir séu á betri stað í næsta glugga og að ég geti valið úr fleiri leikmönnum og öllum okkar bestu leikmönnum. Ég er alls ekki búinn að gefa þá upp á bátinn,“ sagði Arnar Þór.

Mikill fjöldi leikmanna fjarverandi

Sóknarmaðurinn Jón Daði Böðvarsson var ekki valinn að þessu sinni og sagði Arnar Þór það hafa verið erfiða ákvörðun að skilja hann eftir. Hann hafi hins vegar spilað sinn síðasta leik með Bolton Wanderers undir lok apríl og landsleikjaglugginn sem brátt fari í hönd hefjist í byrjun júní og því langt um liðið síðan Jón Daði æfði og spilaði síðast, auk þess sem æfingar hefjist að nýju hjá honum hjá Bolton um miðjan júní.

Vonast Arnar Þór eftir því að Jón Daði haldi áfram að standa sig vel og því kæmi hann vitanlega vel til greina í næsta glugga í september.

Sóknarmaðurinn Alfreð Finnbogason er að jafna sig á meiðslum og er auk þess samningslaus í sumar. Því þótti það ekki áhættunnar virði að velja hann núna enda vilji hann jafna sig fyllilega af meiðslum sínum á meðan hann leitar sér að nýju liði.

Varnartengiliðurinn Guðlaugur Victor Pálsson er ekki í hópnum að þessu sinni, ekki frekar en í mars síðastliðnum og sagði Arnar Þór ástæðuna fyrir því þá sömu og þá; persónulegar ástæður.

Þá er ógetið Jóhanns Bergs Guðmundssonar, sem er meiddur.

Auk þess gefa þeir Sverrir Ingi Ingason og Rúnar Már Sigurjónsson ekki kost á sér, að minnsta kosti um sinn. Mál vegna meintra of­beld­is- og kyn­ferðis­brota þeirra fóru inn á borð Sig­ur­bjarg­ar Sig­urpáls­dótt­ur, sam­skiptaráðgjafa íþrótta- og æsku­lýðsstarfs, síðastliðið haust.

Aron Einar Gunnarsson er svo eini leikmaðurinn af þeim sem koma til greina til vals í landsliðshópinn sem ekki er hægt að velja þar sem hann fellur undir nýja viðbragðsáætlun stjórnar KSÍ í tengslum við meint alvarleg brot einstaklinga sem eru til meðferðar hjá rannsóknar- eða ákæruvaldi og/eða samskiptaráðgjafa, en það er ekki tilfellið hjá Sverri Inga né Rúnari Má eins og staðan er núna.

Mætti svo færa rök fyrir því að Gylfi Þór Sigurðsson, sem var handtekinn vegna gruns um kynferðisbrot gegn barni og svo sleppt lausum gegn tryggingu, falli undir viðbragðsáætlunina en hann var þó ekki inni í myndinni að þessu sinni frekar en að undanförnu enda hefur hann ekki leikið knattspyrnu í að verða ár. Bíður Gylfi Þór enn eftir niðurstöðu í máli sínu á Englandi.

Kolbeinn Sigþórsson er þá án félags og Arnór Ingvi Traustason og Viðar Örn Kjartansson voru ekki valdir að þessu sinni.

Enginn þessara leikmanna hefur tilkynnt Arnari Þór um að þeir séu formlega hættir að leika með landsliðinu.

Það sama á við um miðvörðinn Hólmar Örn Eyjólfsson, sem ákvað að gefa ekki kost á sér í landsliðið í ágúst síðastliðnum og hefur ekki dregið þá ákvörðun til baka. Arnar Þór sagðist nýlega hafa rætt við hann um að endurskoða ákvörðun sína en að Hólmar Örn hafi eftir umhugsun ákveðið að halda sig við hana.

Geta vonandi hjálpað í framtíðinni

Arnar Þór sagðist vonast til þess að margir leikmannanna sem hafa verið fjarverandi eigi afturkvæmt í landsliðið.

„Það eru fullt af eldri leikmönnum sem hafa verið í kringum þetta mjög lengi og ég skil að það eru mjög mismunandi ástæður fyrir því að leikmenn gefi ekki kost á sér eða eru ekki hér í dag. Það er líka eitthvað sem ég sem þjálfari þarf að taka á. Hvort sem menn eru meiddir, eru á ákveðnum stað í sínu félagsliði eða eitthvað persónulegt, það er bara eitthvað sem maður ræðir við leikmennina.

Svo framarlega sem þeir gefi ekki til kynna að þeir séu hættir þá vona ég að við eigum eftir að sjá marga af þessum aðeins eldri leikmönnum okkar, sem hafa verið og eru enn okkar bestu leikmenn með mestu reynsluna, að þeir geti komið inn og hjálpað þessum ungu leikmönnum í framtíðinni,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert