Fylkir sló út tíu Eyjamenn

Daninn Mathias Laursen skorar fyrsta mark leiksins fyrir Fylki.
Daninn Mathias Laursen skorar fyrsta mark leiksins fyrir Fylki. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fylkir tryggði sér í kvöld sæti í 16-liða úrslitum Mjólkurbikars karla í fótbolta með 2:1-heimasigri á ÍBV í 3. umferðinni. ÍBV tók sæti Fylkis í úrvalsdeildinni fyrir þessa leiktíð en Fylkismenn fögnuðu í Árbænum í kvöld.

Verkefni Eyjamanna varð erfiðara þegar Tómas Bent Magnússon fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt í stöðunni 0:0 á 36. mínútu.

Fylkir nýtti sér liðsmuninn og danski framherjinn Mathias Laursen skoraði fyrsta markið á 44. mínútu. Miðvörðurinn reynslumikli Ásgeir Eyþórsson bætti við öðru marki Fylkis á 47. mínútu.

Alex Freyr Hilmarsson gaf tíu Eyjamönnum von með marki á 83. mínútu en nær komst ÍBV ekki. Eyjamenn eru enn án sigurs á leiktíðinni en liðið er 11. sæti Bestu deildarinnar með þrjú stig eftir sjö leiki. Fylkir er í toppsæti 1. deildarinnar með sjö stig eftir þrjá leiki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert