Þessi mörk eru gjöf frá okkur

Atli Sigurjónsson og Mikkel Qvist eigast við í kvöld.
Atli Sigurjónsson og Mikkel Qvist eigast við í kvöld. mbl.is/Hákon

„Það er sárt að tapa 4:0,“ var það fyrsta sem Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, sagði í samtali við mbl.is eftir 0:4-tap gegn Breiðabliki í Bestu deildinni í fótbolta í kvöld. Rúnar var ánægður með frammistöðuna í fyrri hálfleik, þrátt fyrir að vera tveimur mörkum undir.

„Mér fannst við frábærir í fyrri hálfleik og mér fannst við stjórna leiknum og vera betra liðið. Við náum hinsvegar ekki að skora og svo gefum við fyrsta markið á silfurfati og svo kemur vítaspyrnan fljótlega eftir það sem var mjög klaufaleg líka,“ sagði Rúnar.

Breiðablik bætti við tveimur mörkum snemma í seinni hálfleik og var ekki í vandræðum með að sigla sigrinum í höfn eftir það.

„Fyrstu tvö mörkin var ekkert sem Blikar bjuggu til. Þetta kom eftir að við áttum þrjú færi. Þeir áttu jú skot í slá en eftir það eru þeir ekki að skapa neitt og þessi mörk eru gjöf frá okkur. Við fengum töluvert af hornspyrnum og nýttum okkur þennan vind sem við erum með í bakið. Við komum þeim í vandræði og þess vegna var súrt að koma inn í hálfleikinn með 2:0.

Það er ofboðslega erfið staða á móti Blikum. Þeir eru mjög sterkir þegar þeir eru komnir yfir. Þeir voru svo með vindinn í bakið í seinni hálfleik sem auðveldaði þeim að verjast. Þeir vaxa svo þegar líður á leikinn. Þeir eiga skot í varnarmann og boltinn breytir um stefnu, 3:0. Þeir hefðu getað skorað fleiri og þetta er fúlt.

Rúnar Kristinsson
Rúnar Kristinsson Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Okkar skilaboð í hálfleik var að halda áfram að trúa að við gætum komið til baka og unnið þennan leik. Við vildum halda jafnvæginu og ekki fara of margir fram of snemma. Þriðja markið kom hinsvegar óþægilega snemma því við ætluðum hægt og rólega að koma okkur í betri stöðu en á móti Blikum sem eru mjög hraðir, sterkir og góðir í skyndisóknum er það erfitt, sérstaklega þegar þú ert 0:2 undir,“ sagði Rúnar.

Sigurður Bjartur Hallsson fékk tækifærið í framlínu KR-inga í dag og var Rúnar ánægður með hans framlag. „Við vildum fá Sigga inn, hann er fljótur og við vildum koma þeim aðeins á óvart. Þetta var tilraun því ég hafði trú á að Siggi myndi nýtast okkur í dag. Hann gerði það í fyrri hálfleik og ég var mjög ánægður með hvað hann hljóp mikið, barðist og pressaði mjög vel. Það vantaði að fá færin,“ sagði Rúnar.

Hann segist ekki hafa sett Kjartan Henry Finnbogason á bekkinn vegna einhvers konar ósættis með frammistöðu framherjans. „Alls ekki. Kjartan stendur sig vel og er búinn að vera fínn hjá okkur. Við eigum leik strax á sunnudaginn aftur og ég vildi aðeins dreifa álaginu,“ sagði Rúnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert