ÍR lítil fyrirstaða fyrir FH - Óvænt úrslit í Þorlákshöfn

Matthías Vilhjálmsson.
Matthías Vilhjálmsson. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

FH er komið áfram í átta liða úrslit Mjólkurbikars karla eftir sannfærandi 6:1 sigur gegn ÍR í Kaplakrika í dag.

Björn Daníel Sverrisson kom heimamönnum á bragðið strax á sjöttu mínútu og Guðmundur Kristjánsson bætti við öðru marki tíu mínútum síðar og staðan 2:0 í hálfleik FH-ingum í vil.

Björn Daníel skoraði annað mark sitt og þriðja mark FH-inga á 48. mínútu og Baldur Guðlaugsson bætti við fjórða markinu aðeins mínútu síðar.

Steven Lennon kom FH í 5-0 þegar rúmar 20 mínútur lifðu leiks. Már Viðarsson klóraði í bakkann fyrir ÍR úr vítaspyrnu á 78. mínútu en Máni Austmann Hilmarsson skoraði sjötta mark FH-inga undir lokin og þar við sat. Fyrsti sigur Eiðs Smára Guðjohnsen sem þjálfari FH í höfn og liðið áfram í átta liða úrslitin.

Þá vann Ægir dramatískan 1:0 sigur á Fylki í Þorlákshöfn. Staðan var markalaus fram í lok venjulegs leiktíma og allt stefndi í framlengingu þegar Ágúst Karel Magnússon tryggði 2. deildarliði Ægis sigurinn með marki á þriðju mínútu uppbótartímans.

Fylkismenn sitja eftir með sárt ennið en liðið er óvænt úr leik í Mjólkurbikarnum á meðan Ægir fer áfram í átta liða úrslitin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert