Telur öruggt að Kristall verði seldur í sumar

Kristall Máni Ingason.
Kristall Máni Ingason. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Íslands- og bikarmeistara Víkings úr Reykjavík, kveðst þess fullviss að Kristall Máni Ingason, sóknarmaður liðsins, verði seldur í sumar og ljúki því ekki yfirstandandi tímabili í Víkinni.

Kristall Máni, sem er tvítugur, hefur leikið afskaplega vel á tímabilinu, bæði með Víkingi og U21-árs liði Íslands sem tryggði sér umspilssæti fyrir EM 2023 fyrr í mánuðinum. Með þetta góðri spilamennsku er áhugi erlendis frá óumflýjanlegur.

„Það eru alltaf einhverjar þreifingar og þess háttar. Hann fer pottþétt út, ég held að það sé engin spurning,“ sagði Arnar í samtali við Fótbolta.net. Býst hann við því að það gerist í félagaskiptaglugganum sem verður opnaður víðast hvar í Evrópu á morgun.

„[Þ]að kæmi mér verulega á óvart ef það gerðist ekki. Hann er fyrir mér búinn að vera besti maðurinn á Íslandsmótinu, ekkert flóknara en það.

Ísak [Snær Þorvaldsson] hefur líka staðið sig mjög vel en alhliða leikur Kristals er búinn að vera sterkari að mínu mati og ég held að það sé engin spurning að hann sé að fara út,“ sagði Arnar einnig við Fótbolta.net.

mbl.is