Langt síðan maður vann landsleik

Guðlaugur Victor Pálsson lék allan leikinn í kvöld.
Guðlaugur Victor Pálsson lék allan leikinn í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta var virkilega gaman. Það var skemmtilegt að koma til baka og vinna. Það er langt síðan maður hefur unnið landsleik,“ sagði Guðlaugur Victor Pálsson, landsliðsmaður í fótbolta, í samtali við Viaplay eftir 1:0-sigur á Venesúela í vináttuleik í Austurríki í dag.

Seinni hálfleikurinn var töluvert betri en sá fyrri, en Victor segir ekki hafa verið mikil læti í búningsklefa Íslands í hálfleik.

„Nei, svo sem ekki. Við fórum yfir hluti sem við gátum gert betur. Það voru ekki mikið af færum í þessu en það var mikilvægt hjá okkur að halda hreinu og vinna. Það hjálpar sjálfstraustinu. Það var frábært fyrir okkur sem hóp að fá sigur.“

Victor hefur leyst af hinar ýmsu stöður síðustu vikur og mánuði og hann lék sem hægri bakvörður í kvöld. „Það eru tvö ár síðan ég spilaði sem bakvörður og ég þarf aðeins að laga fyrirgjafirnar, en þetta var fínt.“

mbl.is