„Ætluðum okkur miklu meira“

Afturelding er fallið úr Bestu deild kvenna í fótbolta.
Afturelding er fallið úr Bestu deild kvenna í fótbolta. Ljósmynd/Sigfús Gunnar Guðmundsson

ÍBV vann sann­fær­andi 3:0-heima­sig­ur á föllnu liði Aft­ur­eld­ing­ar í lokaum­ferð Bestu deild­ar kvenna í fót­bolta í Vest­manna­eyj­um í dag. Olga Sevcova gerði tvö mörk fyr­ir ÍBV og Ameera Hus­sen eitt mark. 

ÍBV held­ur sjötta sæt­inu með 29 stig, jafn mikið og Sel­foss en með verri marka­tölu. Aft­ur­eld­ing end­ar í ní­unda sæt­inu með 12 stig og er fallið niður um deild. 

Mbl.is spáði Aftureldingu níunda sætinu fyrir mótið og hitti þar naglann á höfuðið.

„Við sáum spánna og ætluðum að gera betur. Ætluðum okkur miklu meira, ætluðum að halda okkur í þessari deild og vildum bara meira. Við höfðum alltaf trú á verkefninu, héldum áfram og fórum í alla leiki með því hugarfari að ætla að vinna en að fara niður er ekki skemmtilegt þannig að það eru mikil vonbrigði“ sagði Ísafold Þórhallsdóttir, liðsmaður Aftureldingar, í samtali við mbl.is eftir leik.

Eftir tímabilið var liðið með fjóra leiki unna og fjórtán tapaða. Aðspurð hvað liðið gæti tekið með sér frá sumrinu sagði Ísafold:

„Úrslitin hefðu mátt vera betri en við sýndum alltaf sterkan karakter og lærðum mikið af þessu. Þetta mun hundrað prósent hjálpa okkur í framtíðinni og við ætlum okkur bara að læra af þessu. Núna tekur bara við gott frí og lokahóf í kvöld“

mbl.is