Þeir hlaupa yfir okkur

Hákon Arnar Haraldsson, til hægri, gengur svekktur af velli í …
Hákon Arnar Haraldsson, til hægri, gengur svekktur af velli í kvöld. Ljósmynd/Alex Nicodim

Hákon Arnar Haraldsson var svekktur þegar hann ræddi við mbl.is eftir 0:3-tap Íslands gegn Bosníu í undankeppni EM í fótbolta í Zenica í kvöld. Bosníska liðið var mun betra og vann sanngjarnan sigur.

„Þetta var alls ekki nógu gott. Við mættum eiginlega ekki til leiks. Við vorum eftir á í öllu og þeir hlaupa yfir okkur,“ sagði Hákon og hélt áfram: „Það vantaði upp á seinni bolta, einvígi og við vorum ekki nógu ákveðnir. Það vantaði helling.“

Skagamaðurinn viðurkennir að það sé högg að tapa stórt í fyrsta leik í nýrri undankeppni, en það má ekki dvelja of lengi við það.

„Þetta er högg að tapa 3:0 í fyrsta leik en mér fannst þetta ekki 3:0-leikur. Það þýðir ekki að svekkja sig á því of mikið núna. Við klárum það í kvöld og svo er það næsti leikur.“

Þrátt fyrir stórt tap, sá Hákon einhverja jákvæða punkta í frammistöðu Íslands.

„Mér fannst boltinn fljóta vel í seinni hálfleik. Miðjan var fín í dag, en við hefðum getað verið betri í seinni boltunum í fyrri hálfleik.

Við höldum boltanum fínt í seinni hálfleik, en við hefðum mátt skapa okkur meira. Við þurfum að skoða hvað við gerðum vel og hvað við gerðum illa og bæta það sem hefði betur mátt fara,“ sagði Hákon Arnar.

mbl.is