Er búið að draga?

Rúnar Kristinsson á hliðarlínunni í kvöld.
Rúnar Kristinsson á hliðarlínunni í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, var að vonum mjög glaður eftir sigur á Stjörnunni, 2:1, í framlengdum leik í átta liða úrslitum bikarkeppni karla í knattspyrnu á Meistaravöllum í kvöld.

„Frábært að landa sigri. Við áttum undir högg að sækja eftir að við komumst 1:0 yfir, Stjarnan var að skapa fullt. Maður var ekkert sérstaklega bjartur eftir að staðan verður 1:1 og við lendum í framlengingu en strákarnir sýndu gríðarlegan karakter að koma til baka, skora annað mark og halda svo út.

Það var minni hætta á ferðinni í framlengingunni en í venjulegum leiktíma. Mér fannst við sigla þessu vel í höfn en ég verð samt að segja að við áttum þetta ekkert fyllilega skilið. Þetta hins vegar er bikarinn, þá snýst þetta bara um að vinna fótboltaleiki, alveg sama hvernig þú gerir það. Á svona fótboltavelli er lítið um flott spil, mér fannst Stjarnan taka meiri sénsa en við og spila ágætlega. Við vorum allt of lélegir í að færa boltann á milli manna og vorum dálítið stressaðir.“

KR leiddi nánast allan leikinn en Stjarnan jafnaði hins vegar metin í uppbótartíma og knúði fram framlengingu. Ægir Jarl Jónasson gerði hins vegar sigurmarkið í leiknum með afar fallegu marki.

„Þetta var geggjað mark. Það var klafs inn í teig sem hann nær að snúa sig út úr og skjóta í fjærhornið. Hann skýtur í gegnum klofið á varnarmanni sem er alltaf erfitt fyrir markmann, hann sér boltann seint og er á leiðinni í hitt hornið. Þetta var kærkomið fyrir okkur og ég er ánægður með að vera kominn í undanúrslit.“

Aron Kristófer Lárusson, varnarmaður KR, hefur ekkert leikið með liðinu á tímabilinu og segir Rúnar hann hafa meiðst aftur á dögunum og verði frá í talsverðan tíma.

„Það eru sex til átta vikur í hann. Hann meiddist á æfingu í fyrradag, var orðinn 100 prósent klár og við vorum farnir að gæla við að hafa hann í hóp í leiknum í kvöld. Hann meiddist á síðustu sekúndu æfingarinnar – tognun einhvers staðar í ökkla. Ég veit ekki alveg hvað þetta er en við erum hræddir um að þetta geti tekið dálítið langan tíma, því miður.“

Stuðningsmenn KR sungu hástöfum allan leikinn og eftir leik: „Áfram KR, við verðum meistarar“.

„Við verðum kannski bikarmeistarar, við erum enn þá í þeirri keppni,“ sagði Rúnar hlæjandi.

„Við erum dálítið langt frá því í Íslandsmótinu. En af því að þú minnist á þá, ég hef gleymt að minnast á stuðningsmennina okkar í sumar. Okkur hefur gengið illa, höfum aðeins komist á meira skrið í undanförnum leikjum, en þeir eru búnir að vera stórkostlegir í allt sumar. Ég er svo stoltur af þessu fólki sem kemur og styður okkur, auðvitað vill ég fá miklu fleiri á svona leik eins og í kvöld en ég veit af fenginni reynslu að ef lið er ekki í toppbaráttu eru oft færri áhorfendur. Við þurfum líka að halda utan um þá, þeir sem hafa komið og stutt við okkur hafa verið gjörsamlega frábærir. Ég biðla til fólks að reyna að koma og hjálpa okkur á laugardaginn.“

KR fær verðugan andstæðing í undanúrslitunum en liðið heimsækir ríkjandi bikarmeistara Víkings. Dregið var í hálfleik í leiknum í kvöld og virtist Rúnar ekki hafa hugmynd um að ljóst væri hverjum KR mætir.

„Af hverju segirðu það, er búið að draga? Hvar eigum við að spila þann leik? 

Þetta er þriðja árið í röð. Liðin í undanúrslitunum eru þau fjögur lið sem enduðu efst í deildinni í fyrra. Ég held að það sé langt síðan að það var svona sterkur hópur liða í fjögurra liða úrslitum sem er sterkt fyrir þessa keppni. Það hefði ekki skipt neinu máli hverja við fengum, heima eða úti. Þetta verður allt gríðarlega erfitt, þetta er bara bikarleikur og það verður bara eitt lið sem stendur uppi sem sigurvegari. Við reynum að snúa þessu við núna, við höfum tapað fyrir Víkingum síðustu tvö ár held ég.“

mbl.is