Finn alveg fyrir 90 mínútum í kroppnum

Sara Björk Gunnarsdóttir fagnar marki Öglu Maríu Albertsdóttur (fyrir miðju) …
Sara Björk Gunnarsdóttir fagnar marki Öglu Maríu Albertsdóttur (fyrir miðju) ásamt Sveindísi Jane Jónsdóttur í leiknum gegn Póllandi í dag. Ljósmynd/KSÍ/Adam Ciereszko

Sara Björk Gunnarsdóttir, fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, lék allan leikinn í 3:1-sigri liðsins á Póllandi í vináttulandsleik þar í landi í dag.

Pólland komst yfir undir lok fyrri hálfleiks en Ísland sneri taflinu við með þremur mörkum í þeim síðari.

„Mér fannst þetta góður seinni hálfleikur. Við fundum ekki alveg taktinn í fyrri hálfleik. Við vorum ekki alveg með pressuna á hreinu og svo var líka slæmt að fá á sig mark í lokin á fyrri hálfleiknum. Mér fannst við koma betur út í seinni hálfleik.

Pressan gekk betur, við stigum ofar. Það var þægilegra. Við unnum boltann ofar og náum að skora þrjú mörk. Það var mikilvægast að fá góða tilfinningu í seinni hálfleiknum og að hafa unnið leikinn, að fara með þessa tilfinningu á EM,“ sagði Sara Björk í samtali við KSÍ eftir leik.

Hún sneri aftur á knattspyrnuvöllinn í mars síðastliðnum eftir barnsburð en fékk ekki margar mínútur með Evrópu- og Frakklandsmeisturum Lyon undir lok síðasta tímabils. Sara Björk var spurð að því hvernig líðanin væri eftir að hafa klárað 90 mínútur í dag.

„Mér líður bara vel en ég finn alveg að það eru 90 mínútur í kroppnum. Ég mun ná að hvíla mig og ég mun láta sjúkrateymið hugsa vel um mig. Vonandi næ ég að endurheimta sem fyrst,“ sagði hún.

Næst heldur íslenska liðið til Þýskalands þar sem liðið mun æfa áður en það heldur til Englands til þátttöku á EM 2022.

„Mér leið ágætlega í Þýskalandi. Ég held að það sé allt í toppstandi í Þýskalandi. Við erum búnar að vera hérna í Póllandi í góðum undirbúning, góður undirbúningur heima.

Við erum með leik, við erum með sigur og svo höldum við bara áfram. Við förum til Þýskalands, æfum vel og gerum okkur tilbúnar fyrir EM,“ sagði Sara Björk að lokum í samtali við KSÍ.

mbl.is

LEIKIR Í DAG - 26. APRÍL

Útsláttarkeppnin

LEIKIR Í DAG - 26. APRÍL

Útsláttarkeppnin