Pólverjar fegnir að sleppa við Íslendinga

Bogdan Wenta þjálfari fagnar pólskum sigri á EM í Austurríki.
Bogdan Wenta þjálfari fagnar pólskum sigri á EM í Austurríki. Reuters

Pólverjar eru fegnir að sleppa við að mæta Íslendingum í undanúrslitum Evrópukeppninnar í handbolta og vilja helst mæta Frökkum í úrslitaleik. Þeir leika gegn Króötum í undanúrslitunum á eftir leik Íslands og Frakklands.

Þetta má allavega lesa úr orðum þeirra í viðtölum á þýska netmiðlinum Handball-Woche.

„Fyrir okkur er betra að mæta Króatíu en Íslandi. Við höfum átt í mestu vandræðum gegn Íslendingum og það voru einmitt þeir sem slógu okkur út á Ólympíuleikunum," sagði Marcin Lijewski, pólski landsliðsmaðurinn sem leikur með Hamburg.

Bogdan Wenta þjálfari Pólverja gjörþekkir líka íslenska liðið. „Ég vona bara að við náum að sigra Króata og að Frakkar leggi Íslendinga að velli," sagði Wenta við Handball-World en undir hans stjórn hafa Pólverjar unnið til verðlauna á tveimur síðustu heimsmeistaramótum, brons í Króatíu 2009 og silfur í Þýskalandi 2007. Þeir eru enn á ný komnir í lokabaráttuna um verðlaunasæti og gætu mætt Íslendingum í leik um gullið eða bronsið á sunnudag.

mbl.is

Bloggað um fréttina