EM viðhorf: Fimm örvhentir af þrettán

Ísland verður tæplega með sextán menn á skýrslu í kvöld.
Ísland verður tæplega með sextán menn á skýrslu í kvöld. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Framundan er keppni í milliriðli I hjá íslenska landsliðinu á EM karla í handknattleik og dönsku heimsmeistararnir verða fyrsti andstæðingurinn í kvöld.

Andstæðingarnir í milliriðlinum eru geysilega erfðir. Danir eru heimsmeistarar, Frakkar eru ólympíumeistarar og Króata höfum við aldrei unnið á stórmóti. Ekki einu sinni þegar Ísland vann til verðlauna á EM í Austurríki 2010. Þá gerðu liðin jafntefli. Fjórði andstæðingurinn verður Svartfjallaland sem virðist vera að færa sig upp á skaftið. Þjóð sem hefur verið sterk í körfuknattleiknum en karlalandsliðið hefur ekki verið áberandi á handboltamótunum. Kvennalandsliðið hjá Svartfjallalandi hefur hins vegar náð langt. Ef til vill er það sama að gerast þar og hjá Hollendingum þar sem karlaliðin eru að ná sér á strik en kvennalandsliðin njóta mestrar fylli. Svartfjallaland skildi Slóveníu og N-Makedóníu eftir og liðið hlýtur því að hafa leikið vel.

Á heildina litið er milliriðillinn því erfiður en hann er einnig litaður af mikilli óvissu vegna kórónuveirunnar. Þrjú íslensk smit í íslenska hópnum, líklega fimm, hafa mikið að segja fyrir íslenska liðið og Króatar hafa farið sérlega illa út úr faraldrinum hvað varðar EM.

Þar af leiðandi er erfitt að segja til um hvernig hlutirnir muni þróast næstu daga. Danir og Frakkar geta lent í smitum þessu eins og aðrir.

Ísland verður litla liðið gegn Danmörku í kvöld og hefði einnig verið það þótt allir væru með. Ísland skellti þó Danmörku á EM fyrir tveimur árum sem sýnir að íslenska liðið getur unnið það danska á góðum tíma. Sóknin var frábær í leiknum í Malmö 2020 og Aron Pálmarsson skoraði 10 mörk og gaf 9 stoðsendingar.  Vörnin hrökk svo í gang þegar Danir reyndu að spila sjö á móti sex.

Elvar Ásgeirsson til hægri á myndinni. Fyrir aftan hann er …
Elvar Ásgeirsson til hægri á myndinni. Fyrir aftan hann er Haukur Þrastarson sem hægt er að kalla í fyrir næstu leiki þar sem hann var í 35 manna hópnum. mbl.is/Unnur Karen

Ljóst er að Björgvin Páll Gústavsson, Elvar Örn Jónsson og Ólafur Guðmundsson verða ekki með og litlar líkur eru á að Aron og Bjarki Már Elísson verði með. Til þess þyrfti PCR prófið að vera neikvætt. Björgvin, Aron, Ólafur og Bjarki eru reyndustu menn liðsins og Aron er fyrirliði. Þeir leikmenn sem eru í Búdapest en hafa ekki verið á skýrslu í leikjunum eru Ágúst Elí Björgvinsson markvörður, Elvar Ásgeirsson, Daníel Þór Ingason og Teitur Örn Einarsson eða Kristján Örn Kristjánsson.

Elvar Örn hefur leikið mikið í miðri vörninni. Það geta fleiri gert og Elliði og Arnar Freyr hafa komið nokkuð við sögu. Elvar Örn hefur hins vegar getað keyrt fram völlinn þegar færi gefst, hvort sem það er hröð miðja eða seinni bylgja eins og það kallast á handboltamáli. Þar sem Elvar er góður sóknarmaður þá hefur það komið vel út. Ólafur getur einnig gert þetta en dettur einnig út.

Þá er spurning hvort og hvernig íslenska liðið reynir að keyra fram þegar færi gefst. Aron hefur stundum verið hvíldur í vörn og þá hefur Ólafur staðið vaktina. Daníel Þór Ingason er líkamlega sterkur og spilar í efstu deild í Þýskalandi. Ef til vill fær hann tækifæri en með Balingen tekur hann þátt í hraðri miðju. Elvar Ásgeirsson er á sínu fyrsta stórmóti og það yrði alvöru eldskírn fyrir hann ef hann myndi fá tækifæri gegn Dönum eða Frökkum en hann leikur jú í Frakklandi. Elvar getur bæði leikið í vörn og sókn og er ágætur skotmaður í skyttustöðunni.

Orri Freyr Þorkelsson lengst til vinstri. Kristján Örn, Sigvaldi, Arnar …
Orri Freyr Þorkelsson lengst til vinstri. Kristján Örn, Sigvaldi, Arnar Freyr og Elliði ættu allir að vera einnig leikfærir. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Vandamálin sem við blasa eru meðal annars þau að af þrettán útileikmönnum verða fimm örvhentir. Sigvaldi í horninu en einnig Ómar, Viggó, Kristján Örn og Teitur. Ef Bjarki Már verður ekki með eins og flest bendir til þá vær varamaður hans, Orri Freyr Þorkelsson, sínar fyrstu mínútur á vellinum á EM. Hann hefur verið á skýrslu en ekki komið inn á. Orri leikur með sterku liði í Noregi, Elverum, sem leikur í Meistaradeildinni en hefur litla reynslu með landsliðinu. Mikil samkeppni hefur verið í vinstra horninu en eftir að Hákon Daði Styrmisson og Oddur Gretarsson urðu fyrir meiðslum opnaðist tækifæri fyrir Orra sem fær nú tækifæri til að stimpla sig inn.

Þeir sem spila í miðri vörninni Ýmir, Arnar Freyr og Elliði eru allir línumenn. Flinkir sóknarmenn eins og Gísli Þorgeir Kristjánsson og Janus Daði Smárason spila ekki vörn með landsliðinu að neinu ráði. Þetta kallar því á skiptingar á milli varnar og sóknar. Menn sem eru góðir bæði í vörn og sókn eins og Aron, Ólafur og Elvar eru í hópi þeirra smituðu. Ekki er því víst að Íslendingar reyni að keyra upp hraðann eins og stundum hentar liðinu að gera.

Viktor Gísli Hallgrímsson.
Viktor Gísli Hallgrímsson. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Björgvin Páll hefur spilað mest í markinu á mótinu. Ágúst Elí hefur reynslu af stórmótum eins og Viktor Gísli Hallgrímsson sem kom við sögu gegn Portúgal og Hollandi. Viktor er framtíðarmaður í landsliðinu og hefur burði til að ná langt. Það hefur legið fyrir frá því 18 ára landslið Íslands fór alla leið í úrslitaleik á EM. Viktor og Ágúst geta fyllt skarð Björgvins en þeir hafa annan stíl.  

Athyglisverðir punktar:

- Ýmir Örn Gíslason fékk rautt spjald gegn Ungverjaland vegna þriggja tveggja mínútna brottvísana. Er það eina útilokunin sem Ísland hefur fengið til þessa í mótinu. Arnar Freyr fékk tvær brottvísanir gegn Portúgal og þeir Elvar Örn og Ómar Ingi Magnússon fengu tvær hvor gegn Hollandi.

- Björgvin Páll varði víti gegn Ungverjalandi. Er það eina vítið sem íslensku markverðirnir hafa varið til þessa í mótinu.

- Ísland náði ekki að skora úr tveimur vítum á móti Ungverjalandi. Ómar Ingi Magnússon og Bjarki Már Elísson áttu víti sem voru varin. Ómar skoraði úr fyrstu sex vítum Íslands í keppninni en ekkert víti fór í vaskinn í fyrstu tveimur leikjunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert