Ísland með fimmtán menn gegn Dönum

Bjarki Már Elísson er kominn í einangrun.
Bjarki Már Elísson er kominn í einangrun. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Ekki er útlit fyrir annað en að Ísland verði með fimmtán leikmenn á leikskýrslu gegn Dönum á EM í handknattleik í kvöld. 

Þrír leikmenn íslenska landsliðsins eru smitaðir og tveir fengu jákvæða niðurstöðu úr hraðprófi. Þegar þeir fá niðurstöðu úr PCR-prófi í dag skýrist hvort þeir séu með veiruna, sem flest bendir til. Ísland verður því væntanlega án fimm leikmanna í kvöld. 

Að sögn Róberts Geirs Gíslasonar, framkvæmdstjóra HSÍ, fundar þjálfarateymið nú um hvernig bregðast skuli við stöðunni sem upp er komin. Að því loknu verður tekin ákvörðun um hvort leikmenn úr 35 manna hópi Íslands verði fengnir til Búdapest og þá hverjir. 

Róbert bendir á að atburðarásin hafi verið hröð. Í gærmorgun hafi eitt hraðpróf bent til þess að smit væri í íslenska hópnum og var þá óskað eftir PCR-prófum fyrir hópinn. Um kvöldið kom í ljós að þrír voru smitaðir eins og frá var greint. Aðrir fengu neikvæða niðurstöðu. 

Í morgun voru tekin hraðpróf og þá reyndust Aron Pálmars og Bjarki Már jákvæðir. Þeir hafa einnig tekið PCR og verði þau jákvæð þá spila þeir ekki næstu dagana heldur. Aron og Bjarki sýndu smávægilg einkenni í morgun og því er líklegt að PCR skili sömu niðurstöðu og hraðprófin. 

Spurður um hvenær búast mætti við niðurstöðu úr PCR sagðist Róbert vonast til þess að það gæti orðið um klukkan 15 eða 16 í dag. En miðað við reynslu sína af mótshöldurum þá væri það kannski bjartsýni. 

Liðin gátu mætt með tuttugu leikmenn á EM og mega mest sextán vera á leikskýrslu í hverjum leik. 

Aron og Bjarki Már eru herbergisfélagar á EM. Björgvin Páll og Ólafur eru það einnig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert