Forsetinn orðlaus í Búdapest

Leikmenn Íslands og þjálfarar fagna eftir ótrúlegan sigur gegn Frakkladi …
Leikmenn Íslands og þjálfarar fagna eftir ótrúlegan sigur gegn Frakkladi á laugardag. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, var orðlaus eftir frækinn sigur Íslands gegn Frakklandi í milliriðli I á Evrópumóti karla í handknattleik sem fram fer í Ungverjalandi og Slóvakíu í Búdapest á laugardag.

Leiknum lauk með 29:21-sigri Íslands en sigurinn var afar óvæntur enda átta lykilmenn fjarverandi hjá íslenska liðinu vegna kórónuveirusmita.

Ísland er nú í lykilstöðu til þess að komast áfram í undanúrslit keppninnar en liðið þarf að vinna lokaleiki sína gegn Króatíu og Svartfjallalandi til þess komast upp úr milliriðlinum.

„Strákar, strákarnir okkar, þjóðhetjur!“ sagði Guðni í myndbandi sem hann birti á facebooksíðu sinni eftir leikinn sem tekið var upp í MVM Dome-íþróttahöllinni í Búdapest.

„Takk! Ég á ekki frekari orð og er varla með rödd til þess að segja meira. Áfram Ísland!

Við fylgjumst áfram með ykkur og við förum alla leið,“ bætti Guðni við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert