Nákvæmni Ómars Inga er 99,5 prósent

Ómar Ingi Magnússon hefur átt fáar feilsendingar á EM.
Ómar Ingi Magnússon hefur átt fáar feilsendingar á EM. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Ómar Ingi Magnússon er í þriðja sæti af öllum leikmönnum yfir flestar sendingar á Evrópumóti karla í handknattleik og hann er líka meðal þeirra fremstu hvað varðar nákvæmni sendinganna.

Ómar hefur átt 920 sendingar á samherja sína í leikjunum sex og samkvæmt tölfræðisíðu mótsins hefur hann hitt á þá í 915 skipti, eða í 99,5 prósentum tilfella. Aðeins fimm sendingar hafa farið forgörðum, eða 0,5 prósent.

Tveir leikmenn hafa átt fleiri sendingar en Ómar og þeir eru báðir Hollendingar. Luc Steins hefur átt 999 sendingar og Dani Baijens 975. Steins er með enn betra hlutfall en Ómar, aðeins 0,4 prósent sendinganna, eða fjórar af þessum 999, hafa farið forgörðum.

Enginn annar Íslendingur er í hópi þeirra þrjátíu leikmanna sem hafa átt flestar sendingar á mótinu. Einn af þessum þrjátíu hefur ekki átt eina einustu feilsendingu. Franska örvhenta skyttan Aymeric Minne hefur átt 475 sendingar sem hafa allar ratað í hendur samherja en hann er í 30. sæti yfir fjölda sendinga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert