Nýliðarnir að versla fyrir metfé

Leikmenn Bournemouth eiga von á liðsauka.
Leikmenn Bournemouth eiga von á liðsauka. AFP

Nýliðar Bournemouth í ensku úrvalsdeildinni hafa komist að samkomulagi við B-deildarliðið Wolves um kaup á framherjanum Benik Afobe. Verðmiðinn er sagður vera um tíu milljónir punda og verður Afobe þá dýrasti leikmaðurinn í sögu Bournemouth nái hann samkomulagi við liðið.

Afobe hefur skorað 23 mörk í 48 leikjum fyrir Wolves síðan hann kom til þeirra frá Arsenal fyrir ári síðan. Hann er uppalinn hjá Arsenal og hefur leikið tvo leiki fyrir U21 árs landslið Englands. Hann var sjötti markahæsti leikmaðurinn í öllum deildum Englands á síðasta ári.

Með brotthvarfi Afobe gætu opnast frekari möguleikar fyrir Björn Bergmann Sigurðarson í framlínunni, en hann var í byrjunarliðinu þegar liðið tapaði fyrir West Ham í bikarnum um helgina. Björn var borinn af velli, meiddur í baki, en ekki liggur fyrir hversu alvarleg meiðslin eru.

mbl.is