Mignolet framlengdi til 2021

Simon Mignolet framlengdi við Liverpool.
Simon Mignolet framlengdi við Liverpool. Heimasíða Liverpool

Simon Mignolet, markvörður enska úrvalsdeildarfélagsins Liverpool, framlengdi samning sinn við félagið til ársins 2021, en þetta kemur fram á heimasíðu félagsins.

Belgíski markvörðurinn kom til Liverpool frá Sunderland árið 2013, en hefur ekki verið í neitt sérlega miklum metum hjá stuðningsmönnum félagsins.

Hann hefur oft á tíðum kostað liðið leiki og var jafnvel búist við því að hann myndi yfirgefa félagið á allra næstunni, en fyrir nokkrum vikum greindu enskir fjölmiðlar frá því að hann myndi framlengja við Liverpool.

Það gekk eftir og samdi hann við félagið til næstu fimm ára. Hann hefur leikið 121 leik í öllum keppnum fyrir félagið.

Hann var þá valinn leikmaður ársins af fyrrverandi leikmönnum félagsins á síðustu leiktíð.

mbl.is