„Við erum í vandræðum“

José Mourinho.
José Mourinho. AFP

„Við erum í vandræðum,“ segir José Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, en meiðsli hafa herjað á leikmannahóp liðsins og í leiknum gegn Anderlecht í Evrópudeildinni í gærkvöld heltust tveir úr leik.

Zlatan Ibrahimovic og Marcos Rojo meiddust báðir illa og ekki er reiknað með því að þeir spili á næstunni og gætu verið úr leik það sem eftir lifir tímabilsins en frekari fréttir af meiðslum þeirra liggja ekki fyrir. Mourinho horfir nú til fyrirliðans Wayne Rooney að fylla skarð Zlatans en Rooney hefur lítið komið við sögu með United-liðinu síðustu vikurnar.

„Rooney er með gott hugarfar og hann er baráttumaður. Hann er sterkur og þótt hann sé ekki í sínu besta standi hefur hann reynsluna og karakterinn,“ segir Mourinho en United sækir Burnley heim í deildinni á sunnudaginn.

Mourinho segir að Ashley Young og Ander Herrera verði báðir í byrjunarliðinu gegn Burnley en þeir komu ekkert við sögu í leiknum gegn Anderlecht í gær. Þá segir hann mögulegt að Juan Mata nái að spila einhverja leiki áður en tímabilinu lýkur en Spánverjinn gekkst undir aðgerð á nára fyrir skömmu síðan. Phil Jones og Chris Smalling eru báðir á sjúkralistanum og spila væntanlega ekki meira með á tímabilinu.

mbl.is