Sögulegur sigur Huddersfield á United

Laurent Depoitre fagnar marki.
Laurent Depoitre fagnar marki. AFP

Huddersfield varð fyrsta liðið til að leggja Manchester United að velli á leiktíðinni þar sem lokatölur urðu 2:1 í leik liðanna í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. Leikurinn fór fram á Kirklees-vellinum í Huddersfield. Sigur liðsins var sögulegur en um er að ræða fyrsta sigur liðsins á Manchester United síðan 1952.

Huddersfield komst í 2:0 eftir 33 mínútna leik. Á 23. mínútu þurfti Phil Jones að fara af velli vegna meiðsla og inn kom hinn 23 ára gamli Svíi Victor Lindelöf. Eftir 10 mínútur inni á vellinum var United með Lindelöf í vörninni hins vegar komið 2:0 undir en liðið var aðeins búið að fá á sig tvö mörk í leikjunum átta fram að þessu.

Aaron Mooy kom Huddersfield yfir á 28. mínútu eftir skyndisókn þar var Lindelöf ekki sannfærandi í varnarleik sínum. Aðeins fimm mínútum síðar spyrnti Daninn Jonas Lössl í marki Huddersfield boltanum langt fram. Lindelöf tókst ekki að skalla boltann fram og það nýtti Laurent Depoitre sér og kom liðinu 2:0. Slæm mistök hjá Svíanum unga og þannig stóðu leikar í hálfleik.

José Mourinho gerði tvær breytingar í hálfleik og tók þá Juan Mata og Jesse Lingard af velli og inn komu þeir Henrikh Mkhitaryan og Marcus Rasfhord. Þær breytingar skiluðu ekki mjög miklu og það var ekki fyrr en á 78. mínútu er Marcus Rashford braut ísinn fyrir United með skalla eftir frábæra sendingu og undirbúning frá Romelu Lukaku, 2:1.

Eftir það setti United-liðið talsverða pressu á Huddersfield sem hélt út og vann sinn fyrsta sigur á Manchester United í 63 ár.

Romelu Lukaku lagði upp mark Manchester United í dag.
Romelu Lukaku lagði upp mark Manchester United í dag. AFP
Huddersfield 2:1 Man. Utd opna loka
90. mín. Leik lokið Huddersfield er fyrsta liðið til að leggja Manchester United á leiktíðinni.
mbl.is