„Þetta er stórfurðulegt“

Antonio Conte.
Antonio Conte. AFP

Antonio Conte, knattspyrnustjóri Englandsmeistara Chelsea, gagnrýnir enska knattspyrnusambandið harðlega fyrir leikjaniðurröðun Chelsea á næstunni.

Ensku meistararnir mættu Qarabag frá Aserbaídsjan á útivelli í Meistaradeildinni í gærkvöldi. Chelsea ferðaðist rúmlega 8 þúsund km leið fram og til baka og Conte skilur ekki að liðið eigi svo að leika mikilvægan leik í ensku úrvalsdeildinni gegn Liverpool á laugardag, aðeins tveimur dögum eftir heimkomu.

„Við verðum að fá fjölmiðla til að hjálpa okkur að benda á hversu fáránlegt þetta er. Þetta er stórfurðulegt,“ sagði ítalski stjórinn.

„Það vita allir að enska deildin er mjög erfið, það eru sex lið að berjast um titilinn. Við fáum einn dag til þess að hvílast eftir ferðalagið fyrir stórleik gegn Liverpool. Ég vil ekki kvarta, en þetta er skrítið,“ sagði Conte.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert