„Á að fara á bekkinn“

Alexis Sánchez gengur af velli eftir tapið gegn Sevilla í ...
Alexis Sánchez gengur af velli eftir tapið gegn Sevilla í gærkvöld. AFP

Fyrrum leikmaður Manchester United segir að Sílemaðurinn Alexis Sánchez verði að fara á bekkinn en Sánchez hefur átt erfitt uppdráttar í liði Manchester United frá því hann kom til liðsins frá Arsenal í janúar.

Sánchez átti enn einn slakan leikinn fyrir United í gærkvöld þegar Manchester United féll úr leik í Meistaradeildinni eftir 2:1 tap gegn Sevilla á Old Trafford.

Paul Scholes, ein af goðsögnum Manchester United, var ekki ánægður með frammistöðu Sánchez og heldur ekki hvernig liðsuppstillingin var hjá José Mourinho. Scholes fannst það skrítið að Marcus Rashford hafi ekki verið látinn spila á vinstri kantinum eins og hann gerði í leiknum við Liverpool um síðustu helgi.

„Ég tel að besta staða Marcus sé á vinstri kantinum en Sánchez missti boltann hvað eftir frá sér. Sánchez er búinn að vera mjög slakur í síðustu fjórum til fimm leikjum og að mínu mati á hann að fara á bekkinn,“ sagði Scholes en Sánchez hefur aðeins skorað eitt mark í þeim 10 leikjum sem hann hefur spilað fyrir Manchester United.

mbl.is