Fékk smáskilaboð frá Mourinho

Claudio Ranieri.
Claudio Ranieri. AFP

José Mourinho og Claudio Ranieri leiða saman hesta sína á Old Trafford á morgun þegar Manchester United og Fulham eigast við í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.

Ranieri er nýlega tekinn við liði Fulham og hans bíður erfitt verkefni en nýliðarnir verma botnsætið í deildinni. Það er líka vandræðagangur hjá Manchester United en liðið hefur ekki tekist að vinna í síðustu fjórum leikjum sínum í deildinni og er í 8. sæti.

„Mourinho var sá fyrsti sem sendi mér skilaboð eftir að ég tók við Fulham. Velkominn aftur og gangi þér vel skrifaði hann í smáskilaboðum til mín.  Ég er búinn að þekkja hann lengi. Hann er frábær maður og þjálfari,“ segir Ranieri.

„Þetta verður erfiður leikur fyrir okkur. Og við verðum að eiga fullkominn leik til að fá eitthvað út úr honum,“ segir Ranieri við enska fjölmiðla í dag.

mbl.is