Van Dijk var nær dauða en lífi

Virgil van Dijk.
Virgil van Dijk. AFP

Virgil van Dijk, miðvörðurinn frábæri í liði Liverpool, var nær dauða en lífi fyrir sex árum en frá þessu greinir varaþjálfari hollenska liðsins Groningen í blaðinu FourForTwo.

Dijk var 20 ára gamall og lék með liði Groningen í Hollandi fyrir sex árum þegar hann veiktist. Í fyrstu var haldið að hann væri bara með flensu en síðar kom í ljós að um botnlangakast var að ræða, bólgur í kviðarholi og nýrnasjúkdóm.

„Hann veiktist eftir leik á móti Excelsior. Við héldum í fyrstu að hann væri með flensu. Hann var heima í nokkra daga og mjög kvalinn. Hann var fluttur á spítalann í bænum en það fannst ekkert að honum og hann var sendur heim. Verkirnir ágerðust og þegar móðir hans heimsótti hann áttaði hún á sig hversu staðan var slæm. Hún fór með hann á annað sjúkrahús og það var mikilvægt. Til allrar hamingju náði hann sér fljótlega en ég var í sjokki. Þegar hann sneri til baka hafði hann breyst úr stórum manni í rýran mann,“ segir fyrrverandi þjálfari Van Dijk.

Van Dijk fagnar marki með Hollendingum.
Van Dijk fagnar marki með Hollendingum. AFP

Ástand Van Dijks var svo alvarlegt að hann gekkst undir aðgerð sem bjargaði lífi hans og var hann frá keppni síðustu tvo mánuði tímabilsins. Hann var síðan seldur til skoska stórliðsins Celtic sem hann lék með frá 2013-15. Þaðan lá leiðin til Southampton en í janúar á þessu ári gekk hann í raðir Liverpool fyrir metfé. Liverpool greiddi 75 milljónir punda fyrir Hollendinginn og varð hann þar með dýrasti varnarmaður heims. Van Dijk hefur blómstrað með liði Liverpool og er af mörgum talinn einn besti varnarmaður heims í dag.

Ég og mamma báðum til guðs

Skömmu eftir aðgerðina sem hann gekkst undir árið 2012 sagði Van Dijk frá því hversu hræddur hann hafi verið og hann hafi jafnvel undirbúið sig undir það versta.

„Ég man það enn þá þegar ég lá í rúminu. Það eina sem ég sá voru slöngur sem héngu í mér. Líkami minn var ónýtur og ég gat ekkert gert. Á því augnabliki fóru verstu hugsanir í gang í höfðinu á mér. Ég var í lífshættu og ég og mamma báðum til guðs. Á einhverjum tímapunkti skrifaði ég undir pappíra. Það var eins konar vitnisburður. Ef ég dæi rynni hluti af peningum mínum til mömmu. Það var auðvitað enginn sem vildi ræða þetta en við urðum að gera þetta. Þetta hefði getað verið búið,“ sagði Van Dijk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert