Sánchez eins og tómatsósuflaska

Marcos Rojo og Alexis Sánchez léttir í bragði á æfingu …
Marcos Rojo og Alexis Sánchez léttir í bragði á æfingu United. AFP

Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, segir að allir viti hve góður leikmaður Alexis Sánchez sé. Norðmaðurinn virðist ekki örvænta þó að Sánchez hafi átt afar erfitt uppdráttar það rúma ár sem hann hefur verið hjá United eftir vistaskiptin frá Arsenal.

„Við vitum öll að þarna er virkilega góður leikmaður á ferð. Þetta er eins og tómatsósuflaskan. Þegar þetta kemur þá kemur þetta og ég er viss um að hann mun standa sig vel,“ sagði Solskjær í aðdraganda stórleiks 16-liða úrslita ensku bikarkeppninnar en United mætir Chelsea í kvöld.

Sánchez hefur aðeins skorað fimm mörk og glímt talsvert við meiðsli síðan hann kom til United í janúar í fyrra. Hann skoraði eitt þessara marka í sigrinum á Arsenal í bikarleik í janúar. Sánchez viðurkenndi í viðtali við BBC á laugardag að hann hefði gjarnan viljað vera búinn að skila meiru til síns félags en hann var mikið gagnrýndur fyrir slaka frammistöðu í 2:0-tapinu gegn PSG í síðustu viku. Samningur hans við United gildir til sumarsins 2022.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert