Cardiff steinlá án Arons

Boltinn lekur inn í mark Fulham eftir að Javier Hernández …
Boltinn lekur inn í mark Fulham eftir að Javier Hernández sló boltann inn. AFP

Cardiff City fékk stóran skell er liðið fékk Watford í heimsókn í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld, 5:1. Aron Einar Gunnarsson var allan tímann á varamannabekk Cardiff. 

Gerard Deulofeu kom Watford yfir með marki á 18. mínútu og reyndist þar eina mark fyrri hálfleiksins. Spánverjinn var hvergi nærri hættur því hann skoraði aftur á 61. mínútu og fullkomnaði þrennuna þremur mínútum síðar og kom Watford í 3:0. 

Troy Deeney bætti við fjórða markinu á 73. mínútu eftir góðan undirbúning Deulofeu. Sol Bamba lagaði stöðuna á 82. mínútu, en Troy Deeney skoraði sitt annað mark í uppbótartíma og gulltryggði stórsigur. 

Watford fór upp í sjöunda sætið með sigrinum og er liðið með 40 stig. Cardiff er hins vegar einu stigi fyrir ofan fallsæti í 17. sæti. 

Ryan Babel kom Fulham yfir á móti West Ham á útivelli eftir aðeins þrjár mínútur. Það dugði hins vegar skammt því Javier Hernández jafnaði leikinn á 29. mínútu er hann skoraði með hendinni af stuttu færi. 

Issa Diop kom West Ham yfir á 40. mínútu og Michael Antonio skoraði þriðja mark West Ham í uppbótartíma. West Ham er í níunda sæti með 36 stig en Fulham í slæmum málum í 19. sæti með aðeins 17 stig. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert