„Íslandsvinurinn“ Hodgson verður sá elsti

Roy Hodgson fylgist áhyggjufullur með leik Íslands og Englands á …
Roy Hodgson fylgist áhyggjufullur með leik Íslands og Englands á EM 2016. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Knattspyrnustjórinn Roy Hodgson slær met á morgun þegar hann stýrir Crystal Palace gegn Leicester í ensku úrvalsdeildinni.

Hodgson verður þá elsti maðurinn til að stýra liði í leik í ensku úrvalsdeildinni eða 71 árs og 198 daga gamall. Hann slær þar með met Sir Bobby Robson.

Í umfjöllun BBC um Hodgson segir Gary Neville, fyrrverandi landsliðsmaður og síðar aðstoðarmaður Hodgson hjá enska landsliðinu, að líta beri á Hodgson sem „einn þann allra besta í sögu enskra þjálfara“.

Hodgson hefur stýrt knattspyrnuliðum frá árinu 1976 en fyrstu þrjá áratugina könnuðust fáir við hann heima á Englandi. Hann stýrði fyrst Halmstad í Svíþjóð og svo reyndar Bristol City um skamman tíma árið 1982, en var eftir það í Svíþjóð og Sviss, stýrði svissneska landsliðinu 1992-1995 og svo Inter í tvö ár áður en hann tók við Blackburn 1997-1998.

Roy Hodgson hóf ferilinn sem þjálfari Halmstad árið 1976.
Roy Hodgson hóf ferilinn sem þjálfari Halmstad árið 1976. AFP

Hodgson hefur einnig þjálfað í Danmörku og Noregi, og stýrt landsliðum Sameinuðu arabísku furstadæmanna og Finnlands. Hann tók svo við Liverpool árið 2010 en entist ekki lengi í því starfi. Eftir að hafa stýrt WBA tók hann við enska landsliðinu sem hann stýrði árin 2012-2016, en hann hætti nokkrum mínútum eftir tapið gegn Íslandi í 8-liða úrslitum á EM í Frakklandi. Hodgson hefur stýrt Crystal Palace frá árinu 2017.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert