Tottenham ræður Mourinho

José Mourinho.
José Mourinho. AFP

Tottenham Hotspur hefur ráðið José Mourinho sem nýjan knattspyrnustjóra eftir að hafa rekið Mauricio Pochettino í gær.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá enska úrvalsdeildarfélaginu.

Portúgalinn skrifaði undir samning sem gildir út tímabilið 2022/2023.

„José er einn þeirra stjóra sem hefur náð hvað bestum árangri í fótboltanum. Við teljum að hann færi okkur orku og trú í búningsklefanum,“ sagði Daniel Levy, formaður félagsins.

„Ég er spenntur að semja við félag sem hefur svona ríka hefð og ástríðufulla stuðningsmenn,“ sagði Mourinho, sem hefur unnið deildartitla í fjórum mismunandi löndum.

„Ég er mjög spenntur, bæði vegna gæðanna í liðinu og akademíunni. Að vinna með þessum leikmönnum gerði gæfumuninn í ákvörðun minni.“

Mourinho stýrði síðast Manchester United í ensku úrvalsdeildinni en var áður stjóri Chelsea og gerði liðið að Englandsmeisturum. Hann gerði enn fremur Porto og Inter Milan að Evrópumeisturum og Real Madrid að spænskum meisturum. 

Pochettino breytti Spurs til hins betra þegar hann kom frá Southampton árið 2014. Þrátt fyrir að hafa ekki tekist að vinna titil komst hann með liðið í úrslitaleik Meistaradeildarinnar fyrir aðeins sex mánuðum, í fyrsta sinn í sögu klúbbsins.

Argentínumaðurinn var rekinn eftir að hafa aðeins unnið þrívegis í fyrstu tólf leikjum tímabilsins. Liðið situr í 14. sæti úrvalsdeildarinnar.

mbl.is