United í reynslubankanum og sögubókunum

José Mourinho mætir með lið Tottenham á Old Trafford annað …
José Mourinho mætir með lið Tottenham á Old Trafford annað kvöld. AFP

„Þeim kafla í mínu lífi er lokið,“ sagði José Mourinho á  fréttamannafundi sínum í dag þar sem fjallað var um viðureign Manchester United og Tottenham í ensku úrvalsdeildinni annað kvöld, en hann var að sjálfsögðu fyrst spurður um hvernig það yrði að snúa aftur á Old Trafford sem knattspyrnustjóri andstæðinganna.

Mourinho var sagt upp störfum hjá United í desember 2018 og Ole Gunnar Solskjær ráðinn í staðinn.

„Ég fór og það tók sinn tíma að átta sig á öllu sem gerðist. Ég tók mér góðan tíma til að búa mig undir næsta verkefni og til að vera hreinskilinn þá er Manchester United núna komið í minn reynslubanka, í mínar sögubækur,“ sagði Mourinho og vitnaði síðan í Nelson Mandela: „Ég tapa aldrei. Annaðhvort vinn ég eða læri.“

„Ég vann og lærði hjá United. Eftir að ég fór frá félaginu átti ég góðan tíma fyrir sjálfan mig. Þetta er ekki staður eða stund til að greina lið Manchester United. Ég greini þá sem andstæðinga, hvernig þeir spila, hvernig við getum unnið þá, hvernig þeir gætu unnið okkur. Í mínum augum skiptir það mestu máli,“ sagði Mourinho.

Bæði lið hafa leikið undir væntingum það sem af er tímabilinu en Tottenham hefur tekið kipp eftir að Mourinho tók við og unnið þrjá leiki undir hans stjórn, tvo í úrvalsdeildinni og einn í Meistaradeildinni. Tottenham er nú í fimmta sæti úrvalsdeildarinnar með 20 stig en United er í níunda sæti með 18 stig. Liðin gætu því haft sætaskipti annað kvöld, takist United að knýja fram sigur.

„Mér líður vel, ég elska stóru leikina og að mæta bestu liðunum, og það skiptir mestu máli. Þegar ég sný aftur á Old Trafford kem ég aftur þangað sem mér leið vel, það  get ég sagt með sanni. Ég á frábær tengsl við stuðningsmenn Manchester United. Ég kom aftur þangað í hlutverki sérfræðings, sem er öðruvísi sjónarhorn, og var hrærður yfir því hve vel mér var tekið,“ sagði Mourinho.

„Á morgun sný ég aftur þangað sem þjálfari liðs sem ætlar að reyna að sigra Manchester United og það er kannski annað sjónarhorn. Ég býst við því að mér verði sýnd virðing, en geri mér grein fyrir því að þeirra væntingar eru þveröfugar við mínar. Ég vil að Tottenham vinni og á meðan leikurinn stendur yfir reikna ég með að þeir gleymi mér og styðji sitt lið til dáða og vonist eftir hagstæðum úrslitum,“ sagði Mourinho enn fremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert