Tekur aðstoðarmaður Guðjóns við Watford?

Nigel Pearson gerði góða hluti með Leicester.
Nigel Pearson gerði góða hluti með Leicester. AFP

Viðræður Watford við Nigel Pearson eru langt komnar og verður hann væntanlega kynntur sem næsti knattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarliðsins á næstu dögum.

Watford rak Quique Sáncez Flores í síðustu viku og leitar félagið af sínum þriðja stjóra á leiktíðinni. Watford rak Javi Gracia snemma á leiktíðinni og entist Flores í tæpa 90 daga í starfi í kjölfarið. 

Pearson var síðast stjóri OH Leuven í Belgíu, en var rekinn þaðan í febrúar síðastliðinn. Pearson kom Leicester upp úr C-deildinni og upp í úrvalsdeildina á sínum tíma. Hann var rekinn frá Leicester í maí 2015 og vann liðið ensku úrvalsdeildina undir stjórn Claudio Ranieri tímabilið á eftir. 

Hinn 56 ára gamli Pearson hefur einnig stýrt Carlisle, Southampton, Hull og Derby. Þá var hann aðstoðarmaður Guðjóns Þórðarsonar hjá Stoke frá 1999 til 2001. Watford er sjö stigum frá öruggu sæti í ensku úrvalsdeildinni og hefur aðeins unnið einn leik í öllum keppnum á leiktíðinni. 

mbl.is