Everton nálgast Evrópusæti

Seamus Coleman og Wilfried Zaha á Goodison Park í dag.
Seamus Coleman og Wilfried Zaha á Goodison Park í dag. AFP

Everton fór upp í 7. sæti ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu með því að leggja Crystal Palace að velli, 3:1, á Goodison Park í dag. Liðið er aðeins stigi á eftir Tottenham í 5. sæti og fjórum stigum á eftir Chelsea í 4. sætinu en bæði lið eiga þó leik til góða.

Gylfi Þór Sigurðsson var í byrjunarliði Everton og það voru heimamenn sem brutu ísinn á 18. mínútu er Bernard stýrði boltanum í netið á fjærstönginni eftir fyrirgjöf Theo Walcott. Walcott fór af velli meiddur skömmu síðar en heimamenn virtust hafa fína stjórn á leiknum og voru verðskuldað yfir í hálfleik.

Gestirnir voru þó ekki lengi að jafna metin eftir hlé og skoraði Christian Benteke sitt fyrsta mark á tímabilinu, þegar skot hans lak undir Jordan Pickford í marki Everton. Enski markvörðurinn hefur verið manna fegnastur sjö mínútum síðar þegar Richarlison endurheimti forystu Everton með glæsilegu marki úr skyndisókn en hann rak boltann frá miðju og skoraði fram hjá Vicente Guaita.

Gylfi Þór fór af velli á 85. mínútu og þremur mínútum síðar rak Dominic Calvert-Lewin smiðshöggið á sigurinn með þriðja marki Everton þegar hann fylgdi eftir sláarskoti Richarlison. Everton er nú með 36 stig í 7. sæti en Manchester United og Wolves eiga leik til góða. Crystal Palace er í 14. sæti með 30 stig.

Everton 3:1 Crystal Palace opna loka
90. mín. Leik lokið Það kom smá skrekkur í heimamenn þegar Benteke jafnaði metin en þeir vinna þó að lokum verðskuldaðan sigur.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert