United með forystu í slagnum um Sancho?

Jadon Sancho fagnar marki með Dortmund ásamt nýjasta liðsfélaga sínum, …
Jadon Sancho fagnar marki með Dortmund ásamt nýjasta liðsfélaga sínum, Erling Braut Haaland frá Noregi. AFP

Liverpool hefur dregið sig út úr kapphlaupinu um enska landsliðsmanninn unga Jadon Sancho hjá Borussia Dortmund, samkvæmt Daily Mirror, og baráttan um hann stendur því á milli Manchester United og Chelsea.

Daily Mirror segir að United sé með undirtökin í þeirri baráttu en muni þurfa að greiða um 120 milljónir punda fyrir þannan nítján ára gamla strák sem vill komast í ensku úrvalsdeildina.

Sancho, sem verður tvítugur í mars, ólst upp hjá Watford til fimmtán ára aldurs en var síðan í röðum Manchester City í tvö ár. Þaðan fór hann til Dortmund árið 2017 og hefur skorað 25 mörk í 65 leikjum fyrir liðið í þýsku 1. deildinni. Þá hefur hann þegar leikið 11 A-landsleiki fyrir Englands hönd og skorað í þeim tvö mörk.

Sancho fæddist í London en foreldrar hans eru frá Trínidad og Tóbagó.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert