Efstur á óskalista United - og gagnkvæmt

James Maddison fagnar marki fyrir Leicester.
James Maddison fagnar marki fyrir Leicester. AFP

Manchester United er sagt vera með James Maddison, miðjumanninn efnilega hjá Leicester City, efstan á sínum óska-innkaupalista fyrir sumarið og hann er sagður hafa mikinn hug á að ganga til liðs við Manchester United.

Manchester Evening News segir í dag að Maddison hafi lengi dreymt um að leika með Manchester United og væri löngu kominn þangað ef hann hefði fengið að ráða. Hann er samningsbundinn Leicester til 2023 en er sagður ákveðinn í að fá það í gegn hjá félaginu að hann verði seldur til United í sumar.

Blaðið segir enn fremur að United hafi mestan áhuga á að fá til sín efnilega enska leikmenn og Maddison sé þar á forgangslista.

Hann fæst þó ekki ókeypis — Manchester United þurfti að greiða Leicester 80 milljónir punda fyrir miðvörðinn og núverandi fyrirliða sinn, Harry Maguire, síðasta sumar og viðbúið er að hinn 23 ára gamli Maddison verði verðlagður enn hærra.

Leicester keypti Maddison af Norwich City sumarið 2018 fyrir 20 milljónir punda og hann hefur skorað 13 mörk í 60 leikjum fyrir liðið í úrvalsdeildinni frá þeim tíma. Hann er fæddur og uppalinn í Coventry og hóf ferilinn þar, og var hálft ár í láni hjá Aberdeen í Skotlandi eftir að Norwich keypti hann. Maddison var í 21-árs landsliði Englands 2017-19 og spilaði sinn fyrsta A-landsleik á síðasta ári þegar England vann Svartfjallaland 7:0 í undankeppni EM.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert