Fékk ekki þá leikmenn sem hann vildi

Wayne Rooney ásamt Louis van Gaal sem stýrði liði United …
Wayne Rooney ásamt Louis van Gaal sem stýrði liði United á árunum 2014 til ársins 2016. AFP

Louis van Gaal, fyrrverandi knattspyrnustjóri Manchester United, stýrði liðinu á árunum 2014 til ársins 2016 en hann tók við liðinu sumarið 2014. Þegar van Gaal kom til Manchester United vildi hann hreinsa til í herbúðum félagsins og fá inn nýja leikmenn en í samtali hans við Manchester Evening News kom fram að hann hefði ekki fengið þá leikmenn sem hann vildi.

Þrátt fyrir það var United stórhuga á leikmannamarkaðnum það sumar og leikmenn á borð við Angel Di María, Marcos Rojo, Nader Herrera, Luke Shaw, Daley Blind og Radamel Falcao komu allir til félagsins það sumar og sumarið eftir bættust þeir Memphis Depay, Matteo Darmian, Bastian Schweinsteiger, Morgan Schneiderlin, Sergio Romero og Anthony Martial.

„Þegar að ég tek við liðinu vorum við einfaldlega ekki með nægilega mikil gæði í hópnum til þess að verða meistarar,“ sagði van Gaal í samtali við MEN. „Við vorum með allt of gamlan leikmannahóp, tíu leikmenn voru komnir á fertugsaldurinn og fimm þeirra voru 35 ára gamlir eða eldri jafnvel.

Ég sagði forráðmönnum félagsins að við yrðum að endurnýja hópinn og lét þá fá lista yfir leikmenn sem ég vildi fá. Ég fékk ekki einn þeirra. Þá ertu settur í þá stöðu að þurfa að vinna með leikmönnum sem þú telur kannski ekki henta þinni hugmyndafræði og þetta var gríðarlega krefjandi verkefni þegar allt kemur til alls.

United var með tekjur upp á 600 milljónir punda þetta ár en samt gat félagið ekki þá keypt leikmann númer eitt á listanum hjá mér og endaði á að kaupa leikmann númer sjö á listanum. Á móti kemur að félög eru treg til að selja leikmenn sína til United og þau biðja um himinhátt verð því þau vita að United á peninga til að versla með,“ bætti van Gaal við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert