Rán um hábjartan dag

Leikmenn Sheffield United voru allt annað en sáttir með að …
Leikmenn Sheffield United voru allt annað en sáttir með að fá ekki dæmt mark í fyrri hálfleik. AFP

Aston Villa og Sheffield United skildu jöfn fyrsta leik ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu eftir að hlé var gert á deildinni vegna kórónuveirufaraldursins þann 9. mars síðastliðinn. Leikmenn Aston Villa voru sterkari aðilinn í leiknum og áttu fleiri marktækifæri.

Á 43. mínútu fengu Sheffield-menn aukaspyrnu sem Oliver Norwood skrúfaði í átt að marki. Örjan Nyland í marki Aston Villa greip boltann og datt svo með hann inn í markið. Boltinn fór augljóslega allur yfir línuna en ekkert var dæmt og staðan því áfram markalaus.

Yfirmaður marklínutækninnar í ensku úrvalsdeildinni hefur nú beðist afsökunar á því að ekki hafa verið dæmt mark. Michael Oliver, dómari leiksins, fékk ekki merki um að boltinn hefði farið inn fyrir línuna vegna mistaka í tæknibúnaði.

Hvorugu liðinu tókst að koma knettinum í netið og jafntefli því niðurstaðan en Aston Villa er áfram í nítjánda sæti deildarinnar með 26 stig, tveimur stigum frá öruggu sæti, en Sheffield United er í sjötta sætinu með 44 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert