Sir Alex óskar Liverpool til hamingju

Sir Alex Ferguson og Sir Kenny Dalglish.
Sir Alex Ferguson og Sir Kenny Dalglish. Ljósmynd/Heimasíða Liverpool

Sir Alex Ferguson sendi landa sínum Sir Kenny Dalglish hamingjuóskir með fyrsta Englandsmeistaratitil Liverpool í 30 ár en Skotarnir elduðu oft grátt silfur saman á árum áður.

Liverpool endaði 30 ára eyðimerkurgöngu sína í enska boltanum á miðvikudaginn en liðið var meistari 1990, þá með Dalglish innaborðs sem spilandi þjálfara. Hann stýrði liðinu 1985 til 1991 og svo aftur frá 2011 til 2012.

„Hann [Ferguson] hafði samband við okkur og sendi hamingjuóskir,“ hefur Sky Sports eftir Dalglish. „Ef þú horfir á þessa gömlu kynslóð sem var undir Ferguson hjá United: Brian Kidd, Mike Summerbee. Allir þessir gömlu óvinir sem voru í fótbolta á sama tíma og ég. Í lok árs þá sendir þú þeim hamingjuóskir ef þeir unnu eitthvað.“

„Þetta er frábær virðingarvottur. Við erum keppinautar en líka nógu veglyndir til að óska hver öðrum til hamingju. Við erum allir að spila knattspyrnuna saman, ekki satt?“

Ferguson stýrði Man. United frá 1986 til 2013 og tókst að enda langa bið Manchester-félagsins eftir Englandsmeistaratitlinum. Hann stýrði liðinu til sigurs á fyrsta úrvalsdeildartímabilinu, 1993, en það var fyrst titill United í 26 ár. Félagið var Englandsmeistari alls 13 sinnum undir stjórn Skotans og yfirtók Liverpool sem sigursælasta lið Englands. United hefur orðið meistari 20 sinnum en Liverpool fagnar nú sínum nítjánda titli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert