Newcastle jafnaði tvisvar gegn West Ham

Tomas Soucek hjá West Ham og Jamaal Lascelles úr Newcastle …
Tomas Soucek hjá West Ham og Jamaal Lascelles úr Newcastle eigast við í dag. AFP

Newcastle og West Ham skildu jöfn, 2:2, í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. West Ham komst tvisvar yfir í leiknum en í bæði skiptin voru Newcastle-menn snöggir að jafna. 

Michail Antonio kom West Ham yfir strax á fjórðu mínútu eftir fyrirgjöf frá Jarrod Bowen. Það tók Newcastle þrettán mínútur að jafna og það gerði Miguel Almirón er hann var fyrstur að átta sig eftir sendingu Emil Krafth og var staðan í hálfleik 1:1. 

Tékkinn Tomás Soucek kom West Ham aftur yfir á 65. mínútu er hann var fyrstur að átta sig eftir að Declan Rice skallaði í slá eftir hornspyrnu. Það tók Newcastle aðeins 90 sekúndur að jafna á ný og var að verki enski miðjumaðurinn Jonjo Shelvey með góðri afgreiðslu eftir sendingu Dwight Gayle. 

Bæði lið fengu færi til að skora sigurmarkið en fleiri urðu mörkin ekki og liðin skiptu með sér stigunum. Newcastle er í tólfta sæti með 43 stig og West Ham í sextánda sæti með 31 stig, fjórum stigum fyrir ofan fallsætin. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert