City að kaupa ungan Spánverja

Fernan Torres er á leiðinni til Manchester City.
Fernan Torres er á leiðinni til Manchester City. Ljósmynd/Valencia

Enska knattspyrnufélagið Manchester City er nálægt því að ganga frá kaupum á Ferran Torres frá Valencia. Er kaupverðið um 24,5 milljónir punda.

Torres, sem er tvítugur Spánverji, hefur leikið vel með Valencia á leiktíðinni og varð hann yngsti leikmaðurinn í sögu félagsins til að skora í Meistaradeildinni fyrir áramót. 

Guardian greinir frá því að Torres hafi þegar samið um kaup og kjör við City og samþykkt fimm ára samning og eiga félögin einungis eftir að komast að endanlegu samkomulagi um kaupverð.

Torres verður ekki eini leikmaðurinn sem City kaupir í sumar því viðræður við Bournemouth um kaup á miðverðinum Nathan Aké eru hafnar. Aké hefur verið einn besti leikmaður Bournemouth síðustu ár en hann kom til félagsins frá Chelsea og hefur leikið með hollenska landsliðinu að undanförnu. 

mbl.is