Ósætti á æfingu United

Bruno Fernandes var ósáttur með táninginn unga á æfingu á …
Bruno Fernandes var ósáttur með táninginn unga á æfingu á dögunum. AFP

Upp úr sauð á æfingu enska knattspyrnufélagsins Manchester United á dögunum en það er The Times sem greinir frá þessu.

Bruno Fernandes, miðjumaður United, var ósáttur við vinnuframlag Mason Greenwood, sóknarmanns liðsins, og lét hann heyra það á æfingunni að því er fram kemur í frétt The Times.

Enski miðillinn greinir frá því að Fernandes og Greenwood hafi verið saman í liði í spili á föstudaginn síðasta og Greenwood hafi ekki nennt að hlaupa á eftir sendingu Portúgalans.

Fernandes var allt annað en sáttur við þetta og lét Greenwood heyra það duglega en Greenwood var ekki í leikmannahópi United sem mætti Everton í ensku úrvalsdeildinni, degi síðar.

Fjölmiðlar á Englandi hafa fjallað mikið um málefni Greenwood að undanförnu en forráðamenn United eru sagðir hafa miklar áhyggjur af leikmanninum, utan vallar.

Hann er sagður sofa illa og lítið. Þá fékk hann aðvörun frá félaginu á dögunum fyrir að mæta of seint á æfingu.

Greenwood er einungis 19 ára gamall en hefur þrátt fyrir það leikið 61 leik fyrir United í öllum keppnum þar sem hann hefur skorað 19 mörk og lagt upp önnur sex.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert