Stefnir í krísu hjá Liverpool?

Mohamed Salah gæti yfirgefið Liverpool ef allt fer á versta …
Mohamed Salah gæti yfirgefið Liverpool ef allt fer á versta veg hjá félaginu. AFP

Stan Collymore, fyrrverandi leikmaður Englandsmeistara Liverpool í knattspyrnu, telur að félagið geti lent í miklum vandræðum ef það nær ekki Meistaradeildarsæti í vor.

Gengi Liverpool eftir áramót hefur verið vægast sagt skelfilegt en liðið var á toppi ensku úrvalsdeildarinnar um jólin.

Liverpool er nú komið í sjötta sæti ensku úrvalsdeildarinnar og er tveimur stigum frá Meistaradeildarsæti.

„Það sést mjög greinilega á leik liðsins að liðið er rúið öllu sjálfstrausti,“ sagði Collymore í samtali við Mirror.

„Takist félaginu ekki að tryggja sér Meistaradeildarsæti yrðu margir leikmenn sem myndu hugsa sig tvisvar um áður en þeir skrifa undir á Anfield.

Félagið gæti lent í tíu ára krísu og leikmenn eins og Mohamed Salah sem dæmi myndu án alls vafa yfirgefa félagið ef það verður raunin.

Eigendur félagsins verða að rífa upp veskið og sýna öðrum félögum að þeir geta líka keypt leikmenn.

Eins þurfa leiðtogar liðsins, þeir Jordan Henderson, James Milner og Virgil van Dijk, að stíga upp og fá alla leikmenn í klefanum til þess að róa í sömu átt,“ bætti Collymore við.

mbl.is