Líkir varnarmanni City við Vidic

Ruben Dias hefur verið frábær í liði Manchester City á …
Ruben Dias hefur verið frábær í liði Manchester City á tímabilinu. AFP

Rúben Dias, miðvörður Manchester City í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, er besti varnarmaðurinn deildarinnar um þessar mundir að mati Jamies Redknapps.

Dias gekk til liðs við City frá Benfica síðasta sumar en City borgaði 65 milljónir punda fyrir portúgalska varnarmanninn.

Dias hefur haft mjög góð áhrif á varnarleik City og hann átti enn einn stórleikinn í 1:0-sigri City gegn Arsenal á Emirates-vellinum í London um helgina.

„Miðvarðapar liðsins lítur hrikalega vel út og ég hugsa að þetta hafi ekki verið parið sem Pep Guardiola hafði í huga að myndi leiða vörnina þegar tímabilið hófst,“ sagði Redknapp á Sky Sports.

„Ég held að fáir hafi átt von á því að Dias myndi hafa þau áhrif sem hann hefur haft á Manchester City-liðið.

Hann er þvílíkur leiðtogi í þessu liði og drífur menn áfram. Hann minnig mig á Nemanja Vidic og það sem Vidic var vanur að gera hjá United.

Vincent Kompany var eins varnarmaður og þetta er besti spilandi varnarmaðurinn í deildinni í dag,“ bætti Redknapp við.

mbl.is