Þarf að borga undir hann á glæsihóteli

Jesse Lingard og Mark Noble ánægðir eftir sigurinn á Leicester …
Jesse Lingard og Mark Noble ánægðir eftir sigurinn á Leicester í gær. West Ham er mjög óvænt í fjórða sæti úrvalsdeildarinnar. AFP

Enski knattspyrnumaðurinn Jesse Lingard hefur farið á kostum með West Ham síðan hann kom þangað sem lánsmaður frá Manchester United í janúar og nú þarf fyrirliði West Ham að standa við loforð sem hann gaf honum.

Mark Noble, reyndasti leikmaður West Ham, sem lék sinn 400. leik fyrir félagið í úrvalsdeildinni í gær þegar það lagði Leicester 3:2, hefur upplýst hverju hann lofaði Lingard þegar hann kom til félagsins.

„Ég sagði við hann þegar hann kom að ef hann skoraði átta mörk, skyldi ég bjóða honum út að borða ásamt gistingu á Corinthia Hotel, þannig að þetta mun kosta mig einhverjar krónur!“ sagði Noble á samfélagsmiðlum.

Corinthia Hotel er fimm stjörnu hótel í miðborg London, rétt hjá Westminster, og þykir eitt það flottasta í heimi. 

Lingard er þegar búinn að skora átta mörk í níu leikjum með West Ham og leggja upp þrjú mörk að auki, en hann hefur gjörsamlega sprungið út eftir að hafa gengið í gegnum erfiða tíma hjá Manchester United. Nú eru nokkur af stærstu félögum heims sögð vera farin að líta hann hýrum augum en West Ham vonast til þess að geta keypt Lingard af United í vor.

Meðal annars er Lingard orðaður við Real Madrid, París SG og Inter Mílanó í fjölmiðlum í dag og þá er Arsenal sagt ætla að reyna að yfirbjóða West Ham og krækja í hann eftir tímabilið.

mbl.is