Liverpool staðfestir komu Konaté

Ibrahima Konaté í baráttunni í leik með RB Leipzig í …
Ibrahima Konaté í baráttunni í leik með RB Leipzig í síðasta mánuði. AFP

Enska knattspyrnufélagið Liverpool hefur staðfest kaup sín á franska varnarmanninum Ibrahima Konaté. Hann kemur frá þýska félaginu RB Leipzig og gerir samning til fimm ára.

Félagaskiptin hafa legið lengi í loftinu og nú hafa þau verið staðfest á opinberri heimasíðu Liverpool. Kaupverðið er um 36 milljónir punda.

Konaté, sem er 22 ára gamall, stór og stæðilegur miðvörður, segist í samtali við heimasíðu Liverpool spenntur fyrir nýrri áskorun.

„Þetta eru afar spennandi tímar fyrir mig og fjölskyldu mína og ég hlakka mikið til þess að hitta nýju liðsfélaga mína, starfsliðið og að hefja þennan nýja kafla.

Akkúrat núna einbeiti ég mér að EM U21-árs landsliða með Frakklandi en eftir þá keppni veit ég að ég er að fara að ganga til liðs við eitt besta félag heims og það lætur mér líða frábærlega,“ sagði Konaté.

Hann hóf meistaraflokksferil sinn hjá franska félaginu Sochaux áður en Leipzig krækti í hann  árið 2017. Eftir fjögur tímabil hjá Leipzig er Konaté þakklæti efst í huga.

„Ég hef lagt mjög hart að mér í mörg ár til þess að komast á þetta stig, en ég vil þakka öllum sem ég vann með hjá RB Leipzig kærlega, þjálfurunum, liðsfélögum mínum, starfsliði og sérstaklega stuðningsmönnunum.

Stuðningur ykkar hjálpaði mér að fullorðnast á tíma mínum hjá Leipzig og að verða ekki bara betri leikmaður heldur betri manneskja og ég verð ævinlega þakklátur fyrir það,“ sagði hann.

mbl.is